22.1.2010 | 13:23
Trillukörlum og útgerðamönnum vísað á dyr.
Það ríkir mikill reiði í dag meðal útgerðamanna og trillukarla, sem landa fiski í Reykjavik, stærstu verstöð landsmanna. Nú stendur til að hækka gjaldskrá Faxaflóahafna og taka af gömlum sjómönnum aðstöðu þeirra í verbúðum við höfnina. En þá aðstöðu hafa þeir haft áratugum saman. Aðstaðan í verðbúðunum var hugsuð sem verkfærageymsla útgerðamanna og trillukarla, sem eru að skapa þjóðinni verðmæti.
En hvað skildi nú koma í staðinn í þessum verbúðum sem útgerðamennirnir og trillukarlarnir höfðu áður? List! Myndlistamenn fá aðstöðuna sem útgerðamenn höfðu áður. Háskólinn hefur fengið aðstöðu fyrir nemendur sína sem stunda listsköpun, á efri hæð hússins, sem nú hýsir fiskmarkaðinn í Reykjavík. Ég gat þess áður að Faxaflóahafnir hefðu nýlega hækkað gjaldskrá félagsins og hefur sú ákvörðun fallið í grýttan farveg þessarra manna. Það kemur engum á óvart, þar sem kostnaður útgerðamanna við rekstur skipa sinna hefur aukist gífurlega. Má þar nefna olíukostnað, tryggingargjöld, fæðiskostnað og viðgerðakostnað m.a. Öll þjónusta hefur hækkað eins og allir vita. Nú er svo komið að nokkrir útgerðamenn eru að kanna þann möguleika að færa sig um set, og landa þar sem gjöld vegna hafnaraðstöðu eru lægri en í Reykjavík.
Þetta er dæmi sem ég nefni er ekki eina dæmið. Nú verður hugsanlega byggð sundlaug í Reykjavíkurhöfn? Ég hélt að það væri yfirdrifið nóg af sundlaugum i hverfum Reykjavíkur. Er það ekki rétt hjá mér? Í Sundahöfn á að fylla upp í höfnina og byggja nýjan viðlegukant flutningaskipa fyrir tugi miljóna króna. Nær væri að endurnýja viðlegukantinn í Sundahöfn fyrir miklu minna fé, því aðstaðan er til staðar.
Eru borgarbúar sáttir að atvinnutækifæri borgarbúa séu á förum annað? Það eru hér um bil 5.000 störf sem gætu með þessum hætti horfið annað og aukið þannig enn meira atvinnuleysið í höfuðborginni. Hafnarfjarðahöfn er á eftir skipafélögunum og bíða nú á hliðarlínunni eftir tækifærum sem myndast við ofangreindar aðstæður. Því þeir sjá vonaneista í nýjum atvinnutækifærum fyrir Hafnarfjörð. Það eru miklar tekjur sem koma inn í sjóði borgarinnar frá útgerðarmönnum og trillukörlum. Fráfall þessarra tekna gæti orðið til þess að skattar hækkuðu hjá borgarbúum og það ættu borgarbúar athuga vel. Við verðum að vinna með fyrirtækjunum að uppbyggingu í Reykjavíkurborg.
Ef við gerum það ekki, munu þessi fyrirtæki flýja Reykjavíkurborg og koma sér fyrir, þar sem hlúð verður að þeim til framtíðar. Ríkistjórnin og borgaryfirvöld verða að vinna saman að uppbyggingu atvinnutækifæra í Reykjavíkurborg. Til þess verður að hafa fólk í borgarstjórn, sem veit hvað sjávarútvegur er og hefur þekkingu á málefnum hafna í Reykjavík. Annað er óhugsandi.
Jóhann Páll Símonarson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.1.2010 kl. 12:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.